Forstjórinn eldar fyrir starfsfólkið

Bergsteinn Einarsson, forstjóri röraverksmiðjunnar Set á Selfossi, starfar sem matráður fyrirtækisins þessa vikuna og sér um að útbúa morgun- og hádegisverð fyrir starfsfólkið.

Bergsteinn er að hlaupa í skarðið fyrir starfsfólk sem er í leyfi að því er greint er frá á heimasíðu Set. Hann hikar ekki við að taka að sér verkefni sem þarf að leysa í fyrirtækinu og í þetta skiptið nýtur hann aðstoðar Ágústs Þórs Guðnasonar, starfsmanns mötuneytisins.

Að sögn Bergsteins er hann ánægður með tilbreytinguna. „Það er gaman að prófa þetta enda hef ég gaman að því að elda og vinna í eldhúsinu. Það er ekki þar með sagt að þetta sé eitthvað frí fyrir mig – þvert á móti. Það er í mörg horn að líta hérna og maður þarf að hafa sig allan við til að undirbúa morgun- og hádegismat fyrir 70 manns,“ segir Bergsteinn um þessa reynslu sína, en fyrsta starf hans var einmitt í eldhúsinu á hóteli á Laugarvatni þegar hann var níu ára gamall.

Bergsteinn mun stjórna mötuneyti Set út þessa viku eða þar til starfsfólk Set fer í jólaleyfi á föstudaginn. Samkvæmt honum hefur matseðill vikunnar að mestu verið skipulagður ef frá er talinn fimmtudagurinn, sem er síðasti starfsdagur í Set þetta árið.

Fyrri greinBúist við hríðarveðri á Hellisheiði
Næsta greinHellisheiði opnuð aftur