Forsætisráðherra skoðaði menningarsalinn

(F.v.) Guðbjörg Jónsdóttir, Katrín Jakobsdóttir, Kjartan Björnsson, Gísli Halldór Halldórsson og Ari Trausti Guðmundsson. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Íþrótta- og menningarnefnd Sveitarfélagsins Árborgar bauð Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra, í heimsókn í ókláraða menningarsalinn í Hótel Selfossi í síðustu viku.

Auk Katrínar hafa Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og Lilja D. Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra, komið í heimsókn í salinn á síðustu vikum þar sem Guðbjörg Jónsdóttir, formaður íþrótta- og menningarnefndar, og Kjartan Björnsson, nefndarmaður, hafa gert þeim grein fyrir stöðu mála.

„Bæjarstjórn Árborgar samþykkti samhljóða í nóvember að ef ríkið kæmi inn í málið með framlag þá myndi sveitarfélagið klára salinn á tveimur árum. Íþrótta- og menningarnefnd sveitarfélagsins heldur á keflinu í dag og allir róa í sömu átt hvar í flokki sem þeir standa,“ sagði Kjartan í samtali við sunnlenska.is að lokinni heimsókn Katrínar.

„Þessar heimsóknir síðustu daga hafa heppnast ákaflega vel og við erum því bjartsýnni en nokkru sinni og vonir okkar hafa glæðst svo um munar. Allir núverandi þingmenn Suðurlands hafa skoðað salinn og er þingmannahópurinn sammála um mikilvægi hans fyrir menningarlíf Sunnlendinga og ríkir um uppbyggingu hans þverpólitísk samstaða meðal þingmanna og kjörinna fulltrúa í héraði,“ bætir Kjartan við.

Það var létt yfir fólki í myrkrinu í menningarsalnum. Guðbjörg og Kjartan sýndu Katrínu og Ara Trausta Guðmundssyni salinn. sunnlenska.is/Guðmundur Karl