Fornleifaskráning er forsenda frekari skipulagsvinnu

Skálholtsfélagið stóð fyrir málþinginu „Skálholt – hvað ætlar þú að verða?“ um síðustu helgi. Málþingið var haldið til að ræða framtíð Skálholts í víðu samhengi minjaverndar, ferðaþjónustu og skipulags.

Í umræðunni á málþinginu varð hugmyndin um mögulega byggingu miðaldakirkju í Skálholti nokkuð áberandi og sýndist sitt hverjum; hvort húsið ætti rétt á sér og einnig hugsanleg staðsetning þess.

Um áttatíu manns sóttu þingið. Þar komu fram mjög mikilvægar upplýsinar fagaðila bæði um fornleifavernd og ferðaþjónustu, svo sem að ekki sé hægt að fara í byggingaframkvæmdir tilgátuhúss nema að undangenginni fornleifaskráningu, sem jafnframt er forsenda frekari skipulagsvinnu. Sú vinna er öll eftir.

Framsöguerindi verða aðgengileg á www.skalholt.is/skalholtsfelagid en matslýsing deiliskipulags Skálholtsjarðarinnar er að finna á vef Skipulags og byggingarfulltrúa uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps. Tekið er við athugasemdum vegna deiliskipulagsins til 30. október.

Skálholtsfélagið mun vinna áfram með þær hugmyndir og ábendingar sem fram komu á málþinginu.

Fyrri greinFjárhagslegur ávinningur af vinnuvernd
Næsta greinÍrskir bjarthegrar á Höfðabrekkutjörnum