Fornbókauppboð í Hveragerði

Laugardaginn 27. júní kl. 14:00 fer fram glæsilegt bókauppboð á fornbókum í tilefni af opnun bókamarkaðarins Bókabæjanna austanfjalls í Hveragerði.

Anna Birna Þráinsdóttir, sýslumaður, mun stýra uppboðinu sem haldið verður að Austurmörk 23, í húsi leikfélagsins, en markaðurinn verður staðsettur þar í sumar.

Verður ýmsa kjörgripi að finna á uppboðinu og má meðal annars nefna þessa titla sem boðnir verða upp: Harmsaga ævi minnar eftir Birkiland, Norsk lög Hrappseyjarprents frá 1779, Færeyingasaga frá 1832, Saga Ólafs Tryggvasonar frá 1892, Grallari frá 1739, Orðskviðasafn Guðmundar á Staðastað frá 1809, Hauksbók frá 1892, Íslenskir sjávarhættir, Árituð Hvalasaga Jóhannesar Kjarvals, Björn og Sveinn eftir Megas, Enemond eftir Dunganon, Kortasaga Íslands og margt fleira.

Heildarlisti yfir bækur sem boðnir verða upp verður birtur á heimasíðu Bókabæjanna austanfjalls.

Markaðurinn verður opnaður í dag, föstudaginn 26. júní klukkan 12:00 og verður opinn til 18:00. Bókamarkaðurinn verður opinn allar helgar í sumar frá 12-18 föstudaga, laugardaga og sunnudaga. Honum lýkur svo helgina 14.-16. ágúst, á sama tíma og bæjarhátíðin Blómstrandi dagar verður haldin.

Fyrri greinGjaldtökuhlið sett upp við Seljalandsfoss
Næsta greinNokkrir hálendisvegir opnaðir í dag