Fornbílamót í frábæru veðri

Landsmót fornbílaklúbbs Íslands er haldið í níunda sinn á Selfossi um helgina. Mótið er með svipuðu sniði og undanfarin ár en í dag er bílasýning á svæðinu þar sem hátt í 250 bílar eru til sýnis.

Mótið var sett í gærkvöldi en kl. 13 í dag hófst bílasýning sem stendur til kl. 18. Þar má sjá ýmiskonar fornbíla, rútur, vörubíla og 4×4 jeppa.

Einnig verða markaðir, myndasýningar, vagnlest fyrir börnin, keppni í fjarstýrðum bílum, leikir og þrautir svo allir í fjölskyldunni ættu að finna sér eitthvað við hæfi.

Á morgun verður dagskrá milli kl.13 og 16:30 en þá verða fjölbreyttir bílaleikir og þrautir á svæðinu.

Frábært veður er á Selfossi og vilja aðstandendur mótsins bjóða alla velkomna þegar svæðið er opið en minna á að lausaganga hunda er bönnuð á svæðinu.