Formlegar reglur verða settar um samskipti skóla og trúfélaga í Árborg

„Þrátt fyrir að umræða hafi farið fram í fræðslunefnd og á fræðslusviði hefur sveitarfélagið ekki sett sér formlegar reglur um þessi samskipti.

Nú í haust fékk sveitarfélagið fyrirspurn um hvernig þessum málum væri háttað og hvort við hefðum sett okkur reglur. Í kjölfar fyrirspurnarinnar lagði ég fram tillögu um að við settum okkur formlegar reglur eins og nokkur sveitarfélög hafa þegar gert. Það er til mikils hægðarauka fyrir skólana að hafa skýrar vinnureglur varðandi samskipti skóla og trúfélaga sem auðvelt er að vísa í og upplýsa um ef að berast fyrirspurnir varðandi þetta. Það er mikilvægt að í Sveitarfélaginu Árborg séu samræmdar reglur um samskiptin,” segir Arna Ír Gunnarsdóttir, bæjarfulltrúi S-lista í bæjarstjórn Árborgar.

Á síðasta fundi fræðslunefndar lagði hún fram tillögu um að settar verði formlegar reglur um samskipti grunnskóla Árborgar og trúarfélaga.

Arna segir að Mennta- og menningarmálaráðuneytið hafi sent öllum sveitarfélögum á Íslandi tillögur sl. vor um með hvaða hætti æskilegt sé að samskiptum skóla og trúfélaga á öllum skólastigum sé háttað. Því hafi hún lagt fram tillöguna í fræðslunefnd til þess að ýta á eftir málinu. Tillögur ráðuneytisins voru unnar af hópi skipuðum fulltrúum frá Heimili og skóla, Biskupsstofu, Kennarasambandi Íslands, Siðmennt, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, auk fulltrúa ráðuneytisins.

En eru trúfélög að sækja stíft á að koma í heimsóknir í grunnskóla Árborgar? „Nei, ég held að það hafi ekki verið lenska að trúfélög séu að koma inn í skólana almennt. Skólarnir hafa farið í kirkjuheimsóknir í desember en þá er öllum foreldrum sent bréf og þeim gefinn kostur að afþakka að fara í þær heimsóknir. Það hafa þó komið upp spurningar og vangaveltur í tengslum við að þjóðkirkjan hefur verið að bjóða upp á kirkjuskóla fyrir yngstu nemendurna í húsakynnum grunnskólanna“, segir Arna Ír.

Fyrri greinRáðist á unga konu með eggvopni
Næsta greinHamar tapaði stórt