Forhönnun á ljósleiðara hafin

Undanfarið hefur verið unnið að undirbúningi á lagningu ljósleiðara inn á hvert heimili í Ásahreppi. Síðasta sveitarstjórn vann að undirbúningi þess og stofnaði meðal annars Fjarskiptafélag Ásahrepps.

Í frétt á heimasíðu hreppsins segir að framkvæmdin muni kosta um 900 þúsund á hverja tengingu en lögð er áhersla á að læra af reynslu annarra sveitarfélaga sem hafa lagt í slíkt stórverkefni. Sérstaklega var horft til framkvæmdarinnar í Skeiða- og Gnúpverjahreppi þar sem sveitarfélagið stóð alfarið að henni, líkt og Ásahreppur.

Af því tilefni var Guðmundur Daníelsson sérfræðingur hjá Orkufjarskiptum fenginn á fund hreppsnefndar í gær. Hann vann að hönnun og framkvæmd ljósleiðaralagningar í Skeið- og Gnúp, Mýrdalnum og Hvalfjarðarsveit. Hann er því öllum hnútum kunnugur og sérlega vel að hans þætti máls látið.

Ákvað sveitarstjórn á fundi sínum í gær að fá Guðmund til að forhanna ljósleiðaralagninguna, en mikilvægt er að hefjast handa nú þegar til að næsta sumar nýtist til lagningu leiðarans.

Ljóst er að ljósleiðari mun valda straumhvörfum í fjarskiptamálum sveitarfélagsins. Þá verður búið að tryggja fyrsta flokks fjarskipti til langrar framtíðar. Án efa er þetta einstakt tækifæri til þess að fjölga íbúum á svæðinu, efla atvinnulíf og treysta verðgildi eigna og eftirspurn eftir þeim. Því er til mikils að vinna og var í gær stigið stórt skref í átt að ljósleiðaravæðingunni.

Fyrri greinÓloft sunnanlands
Næsta greinION hótel bauð hæst í veiðiréttinn