Foreldrar vilja stytta sumarfrí leikskólans

Foreldraráð leikskólans Álfaborgar í Reykholti í Bláskógabyggð hefur farið þess á leit við sveitarstjórn að sumarfrí leikskólans verði ekki lengur sex vikur heldur stytt niður í fjórar vikur.

„Ástæðan fyrir því að við fórum af stað með þetta málefni var vegna þess að við vorum búin að heyra foreldra og starfsmenn tala um það að margt væri óhentugt hvað þetta varðar. Í fyrsta lagi hefur atvinnumynstur íbúa sveitarfélagsins breyst þar sem atvinnumöguleikar hafa aukist og í flestum tilfellum eru báðir foreldrar útivinnandi. Sumir einstaklingar hafa einungis rétt á fjórum vikum í sumarfrí og af þeim ástæðum þurfa foreldrar að skipta upp sumarfríinu sínu til þess að láta þetta ganga upp og getur þá fjölskyldan lítið notið þess að vera saman í sumarfríi,“ segir Rakel Theodórsdóttir, sem á sæti í foreldraráðinu.

Auk þess segir hún að ekki allir starfsmenn leikskólans eigi rétt á sex vikum í sumarfrí og þar af leiðandi þurfa þeir að taka tveggja vikna launalaust frí. „Fyrir einstæða foreldra er þetta einnig erfitt þar sem þetta getur kallað á aukin útgjöld fyrir þau, þar sem þau þurfa að útvega pössun fyrir barnið og oft með meiri tilkostnaði en ef barnið væri í leikskólanum,“ segir Rakel.

Málið er unnið í nánu samstarfi með leikskólastjóra Álfaborgar og var send út könnun á vegum foreldraráðs til allra foreldra þeirra barna sem eru í leikskólanum. Spurt var: „Er hagur þinn sem foreldri að sumarleyfi leikskólans verði stytt úr sex vikum í fjórar?“ Niðurstaða könnunarinnar var sú að 64 prósent þeirra sem svöruðu vilja að sumarleyfið verði stytt í fjórar vikur.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar hefur bent foreldraráðinu á að ekki er gert ráð fyrir slíkum kostnaðarauka samkvæmt fjárhagsáætlun ársins 2016 og því ekki hægt að verða við þessum óskum á þessu ári.

Hefur sveitarstjórn falið skólastjórum leikskóla sveitarfélagsins að skoða þetta mál og kostnaðarmeta þessa breytingu og útfæra hugmyndir um framkvæmd hennar með greinargerð sem liggi fyrir í vor svo hægt verði að taka umræðu og ákvarðanir fyrir gerð fjárhagsáætlunar 2017.

Fyrri greinHafrabollur
Næsta greinForystufólk heiðrað á héraðsþingi