Foreldrar vilja fá borgað fyrir að keyra börn sín í leikskólann

Foreldrar barna á leikskólaaldri austan Markarfljóts hafa skorað á sveitarstjórn Rangárþings eystra að veita akstursstyrk til þeirra íbúa í dreifbýli sveitarfélagsins sem aka börnum sínum í leikskóla á Hvolsvelli.

„Það er okkar skoðun að leikskóli eigi að vera valkostur allra íbúa sveitarfélagsins óháð efnahag og búsetu,“ segir í áskorun frá foreldrum leikskólabarna til sveitarstjórnar. Fjölskyldurnar búa að meðaltali 34 kílómetra frá leikskóla sveitarfélagsins á Hvolsvelli og því er meðalakstur hverrar fjölskyldu 136 kílómetrar fyrir hvern sóttan leikskóladag eða um 31 þúsund kílómetrar á ári sé miðað við fulla vistun.

Sé það margfaldað með akstursgjaldi ríkisins (116 kr.pr.km) þá kostar leikskólaakstur 3.596.000 krónur fyrir hverja fjölskyldu. „Réttur allra íbúa sveitarfélagsins á að vera sá sami og því er krafa okkar að komið sé til móts við okkur með akstursstyrk eða öðrum leiðum, sem um munar,“ segir í lok áskorunnar.

Sveitarstjórn samþykkti á síðasta fundi sínum að fela Ísólfi Gylfa Pálmasyni, sveitarstjóra að ræða við leikskólastjóra um tilhögun leikskólamála í dreifbýli.

Fyrri greinHraði og hlátur í fínum farsa
Næsta greinLandsnet býður út 40 km af jarðstrengjum