Foreldrar hæstánægðir með leikskólana í Árborg

Á síðasta fundi fræðslunefndar Árborgar voru kynntar helstu niðurstöður foreldrakönnunar í leikskólum Árborgar.

Könnunin var gerð í janúar og febrúar á þessu ári af skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar. Markmið könnunarinnar var að skoða viðhorf foreldra til leikskólans, daglegra viðfangsefna, áherslna, skipulags og upplýsingaflæðis.

Könnunin sýnir að mikill meirihluti foreldra er hæstánægður með leikskólastarfið en 98% svarenda telja að barninu líði vel í leikskólanum, 92% foreldra telja viðfangsefni í leikskólanum áhugaverð og 97% svarenda telja að starfsfólk sýni barninu umhyggju.

Í tilkynningu frá Árborg segir að viðhorfskannanir í skólum séu mikilvægt umbótatæki og hluti af ytra mati sveitarfélagsins.

Hver leikskóli vinnur úr niðurstöðum, meðal annars til að styrkja þá þætti sem koma veikari út en aðrir.

Skýrslurnar eru aðgengilegar á heimasíðu Árborgar, bæði heildarskýrslan og skýrsla hvers leikskóla.

Fyrri greinRannsókn á láti fanga lokið
Næsta greinSaltsýruleki í heilsulind