Foreldrar greiði sama gjald fyrir dagforeldri og leikskóla

Bæjarstjórn Árborgar samþykkti á dögunum að vísa tillögu B-listans um hækkun á niðurgreiðslum til foreldra með börn hjá dagforeldrum til fjárhagsáætlunargerðar fyrir næsta ár.

Helgi S. Haraldsson, B-lista, fylgdi tillögunni úr hlaði á fyrsta fundi bæjarstjórnar en í tillögu B-listans er lagt til að niðurgreiðslur verði hækkaðar þannig að foreldrar borgi sama gjald hjá dagmóður og fyrir sömu vistun ef barnið væri á leikskóla.

„Meðan þörf er á þjónustu dagforeldra í sveitarfélaginu og börn komast ekki inn á leikskóla hefur það hamlandi áhrif á að foreldrar komist aftur út á vinnumarkað. Í dag þarf að greiða helmingi hærra gjald til dagforeldra en sambærilegt leikskólagjald og því margir foreldrar sem hreinlega hafa ekki efni á því að snúa aftur til vinnu eftir fæðingarorlof eða yfir höfuð að senda barn til dagforeldra,“ segir í greinargerð með tillögunni.

Bæjarstjórn samþykkti samhljóða að vísa tillögunni til fjárhagsáætlunargerðar.

Fyrri greinStokkseyri og Árborg kræktu í stig
Næsta greinRjómabúið opið allar helgar