Foreldaráð hefur áhyggjur af stöðu mála

Foreldraráð Fjölbrautaskóla Suðurlands lýsir yfir þungum áhyggjum af því ástandi sem uppi er í framhaldsskólum landsins eftir að verkfall framhaldsskólakennara hófst þann 17. mars síðastliðinn.

Foreldraráð hvetur nemendur Fjölbrautaskóla Suðurlands til að reyna af fremsta megni að halda áfram að sinna námi sínu, fara eftir kennsluáætlunum þar sem þær liggja fyrir og lesa námsefni og leysa verkefni eftir því sem hægt er. Allt telur og skiptir máli.

Foreldraráð FSu leggur áherslu á mikilvægi þess að foreldrar styðji við börn sín meðan þetta ástand ríkir, aðstoði þau við námið, hvetji þau til að læra á hverjum degi og séu til staðar og grípi inn í ef vanlíðan og kvíði gerir vart við sig. Það á sérstaklega við ef verkfallið dregst á langinn.

Foreldraráð FSu hvetur nemendur til að halda daglegri rútínu og gæta þess að fara á fætur á morgnana, hreyfa sig og gera sér áætlun fyrir daginn í stað þess að snúa sólarhringnum við. Fyrir einhverja verður kannski freistandi að vera bara heima. En það skiptir máli að hitta annað fólk, vini eða ættingja. Foreldraráð minnir á að skólinn er opinn, bókasafnið er góður staður til að vinna og það getur verið hressandi og hvetjandi að fara og hitta skólasystkinin í réttu umhverfi. Unmennahúsið í Pakkhúsinu á Selfossi er einnig opið.

Að lokum vonast Foreldraráð FSu til þess að framhaldsskólakennarar og viðsemjendur þeirra beri gæfu til að finna lausn á þeirri erfiðu stöðu sem samningamál þeirra eru komin í.