Fordæma tillögu um tóbaksvarnir

Félög ungra sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi fordæma nýja þingsályktunartillögu um að velferðarráðherra vinni 10 ára aðgerðaáætlun um tóbaksvarnir þar sem sala á tóbaki verði takmörkuð við apótek.

Í ályktun frá ungum sjálfstæðismönnum segir að full ástæða sé til þess að efla forvarnarstarf varðandi tóbaksnotkun, en það verði ekki best gert með því að vega svo heiftarlega að frelsi einstaklinga líkt og umrædd tillaga gerir.

Stefna Sjálfstæðisflokksins hefur frá upphafi verið að berjast fyrir frelsi einstaklingsins. Ungir sjálfstæðismenn í Suðurkjördæmi lýsa því yfir miklum vonbrigðum með þann þingmann flokksins úr kjördæminu sem hefur greint frá stuðningi sínum við tillöguna. Ungir Sjálfstæðismenn í Suðurkjördæmi treysta á að aðrir þingmenn muni ekki leggja nafn sitt við þessa þingsályktunartillögu forræðishyggjufólks.

Undir ályktunina rita eftirfarandi félög:
Eyverjar f.u.s í Vestmannaeyjum
Askur f.u.s í Hveragerði
Skaftfellingur f.u.s í Hornafirði
Loki f.u.s í Garði, Sandgerði og Vogum
Heimir f.u.s í Reykjanesbæ
Hersir f.u.s í Árnessýslu
Freyja f.u.s í Grindavík
Fjölnir f.u.s í Rangárvallasýslu

Fyrri greinSjötta menningarveislan sett
Næsta greinÞórir til Póllands