Fór of snemma af stað og missti prófið

Lögreglan á Selfossi svipti ökumann ökuskírteini sínu snemma í morgun, eftir að hann var gripinn ölvaður á Eyrarbakkavegi.

Ökumaðurinn var færður á lögreglustöðina á Selfossi og þar kom í ljós að talsvert áfengismagn var í blóði hans.

Ökumaðurinn hafði neytt áfengis í gærkvöldi og segir lögregla að hann hafa lagt of snemma af stað í morgun og áhrif áfengisins höfðu enn áhrif.

Ekkert athugavert var við aksturslag ökumannsins sem var stöðvaður við reglubundið umferðareftirlit lögreglunnar á Selfossi.