Ökumaður fólksbíls var fluttur á Landspítalann í Fossvogi eftir bílveltu efst í Kömbunum seint í gærkvöldi.
Tilkynning um slysið barst klukkan 23:57 og fóru viðbragðsaðilar frá Selfossi á vettvang ásamt tækjabíl frá Brunavörnum Árnessýslu í Hveragerði.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurlandi var ökumaðurinn meðvitundarlaus þegar viðbragðsaðilar komu á vettvang og þurftu slökkviliðsmenn að beita klippum til þess að ná honum út úr bílnum.
Lögreglan rannsakar tildrög slyssins en bíllinn fór nokkrar veltur og er stórskemmdur.

