„Fór betur en á horfðist“

Mynd úr safni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

„Við fengum mikinn hvell í kringum klukkan fimm í morgun. Þá var mjög hvasst í Þorlákshöfn og á Eyrarbakka og mikið foktjón. Það var þetta helsta, þök og þakkantar, gróðurhús,“ segir Viðar Arason, formaður svæðisstjórnar björgunarsveitanna í Árnessýslu.

„Annars var nóttin sem slík róleg og fór betur en á horfðist. Það munaði tveimur gráðum í hita, þannig að það snjóaði ekki. Við vorum búin að gera miklar ráðstafanir vegna ófærðar og vorum með Vegagerðina hjá okkur í björgunarmiðstöðinni í nótt í undirbúningi. Það var viðbúið að við þyrftum að koma fólki til og frá vinnu og aðstoða sjúkraflutninga en við fengum eitt útkall þar sem þurfti að sækja sjúkraflutningamann í Hveragerði og flytja hann til vinnu á Selfossi,“ segir Viðar.

Björgunarsveitarfólk var við öllu búið og gisti í húsnæði björgunarsveitanna í nótt. Svæðisstjórn björgunarsveita mannaði aðgerðastjórn í Björgunarmiðstöðinni á Selfossi frá miðnætti en um sjöleitið í morgun var byrjað að senda björgunarsveitir heim og verkefnum næturinnar lokið.

Sveitirnar eru þó í viðbragðsstöðu því eftir hádegi í dag er gul viðvörun í gildi, frá klukkan 14 til klukkan 18 á morgun. Hvassar éljahryðjur munu ganga yfir landið og líkur eru á samgöngutruflunum og foktjóni. Þá er mikil ölduhæð við ströndina sem nær hámarki í kvöld.

Fyrri greinEldingaveður seinkar viðgerðum á raflínum
Næsta greinBúið að opna Þrengslin