Björgunarsveitir í Árnessýslu fengu útkall um miðjan dag í dag á hæsta forgangi vegna fólks í jeppabifreið sem hafði stöðvast úti í miðri Fjórðungakvísl í Nýjadal á Sprengisandsleið.
„Við fengum útkall á hæsta forgangi og vorum byrjuð að kalla út sveitir af stærra svæði, allt frá Akureyri, þegar annar jeppi kom á vettvang og bjargaði fólkinu. Þau náðu þá aftur sambandi við Neyðarlínuna og létu vita að þau væru heil á húfi,“ segir Viðar Arason, í aðgerðastjórn björgunarsveita í Árnessýslu, í samtali við sunnlenska.is.
„Það eru miklir vatnavextir þarna á svæðinu og það var ekkert ferðaveður í dag. Þau voru að fara yfir vað þegar drapst á bílnum í ánni en fólkið beið í bílnum og var öruggt,“ bætti Viðar við.
Varað var við ferðum á miðhálendinu í dag en appelsínugul viðvörun var í gildi og mjög slæmt ferðaveður.