„Fólki er heitt í hamsi“

María Óladóttir og Helga Guðmundsdóttir sinntu verkfallsvörslu á leikskólanum Jötunheimum á Selfossi í morgun. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Verkfallsaðgerðir BSRB félaga hófust í gær, meðal annars í Árborg, Hveragerði og Ölfusi. Starfsfólk tíu sveitarfélaga leggur niður störf í vikunni, eða um 1.500 manns, vegna kjaradeilu BSRB við Samband íslenskra sveitarfélaga.

„Það er mikill hugur í fólkinu okkar á Suðurlandi en ég hitti mörg þeirra á fundi um verkfallsvörslu í morgun. Það er sama hvert maður kemur, fólki er heitt í hamsi og skilur ekki hvers vegna sveitarfélögin eru ekki löngu búin að leiðrétta þennan launamismunun og hækka lægstu launin,“ sagði Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, þegar hún var stödd á Selfossi í gær.

Verkföll í leikskólum, grunnskólum og höfnum
Í dag eru starfsmenn í leikskólum í Hveragerði og Árborg í verkfalli hálfan daginn, til kl. 12, eins og starfsmenn í Grunnskólanum í Þorlákshöfn og skólaeldhúsi þar. Á morgun, miðvikudag, verða hafnarstarfsmenn í Ölfusi í verkfalli allan daginn og starfsmenn í Grunnskólanum í Þorlákshöfn og skólaeldhúsi þar hálfan daginn, til kl. 12. Á fimmtudag verða starfsmenn leikskóla í Hveragerði og Árborg í verkfalli hálfan daginn, til kl. 12 og föstudaginn 26. maí verða hafnarstarfsmenn í Ölfusi í verkfalli allan daginn.

Um helgina lauk atkvæðagreiðslum BSRB félaga um enn frekari verkfallsaðgerðir. Því er ljóst að stígandi verður á verkfallsaðgerðum fram í júlí – og jafnvel lengur til að mynda í sundlaugum og íþróttamannvirkjum. Náist ekki að semja munu verkföllin ná til um 2.500 starfsmanna 29 sveitarfélaga um allt land.

Fyrri greinBragðlaus frammistaða í Bítlabænum
Næsta greinOlga nýr varaforseti ÍSÍ