Fólki bjargað úr reykfylltu húsi

Rembihnútar og rauði takkinn er yfirskrift innanfélagskeppni sem liðsmenn Björgunarfélags Árborgar tóku þátt í í dag.

Um þrjátíu félagar komu að keppninni, þar af tuttugu keppendur í fjórum liðum. Liðin þurftu að leysa fjögur verkefni og fengu stig út frá því hvernig verkefnin voru unnin og hvernig samvinnan var innan hópsins. Tíminn skipti ekki öllu máli í þessari keppni heldur það að sýna réttu handtökin á vettvangi.

Meðal annars þurfti að sinna slösuðum á víðavangi, bjarga fólki út úr reykfylltu húsi, sýna leitartækni og síga niður í bát fram af Sogsbrú.

Þannig reyndi dagurinn á flest þau atriði sem heil björgunarsveit getur þurft að kljást við en unnið var í 4-6 manna hópum. Þess vegna þurftu liðsstjórar að velja einstaklinga í sitt lið með sem breiðasta þekkingu svo að hópurinn gæti nýtt sér krafta allra.

Eftir mjög harða og jafna keppni var það gula liðið sem sigraði og fengu liðsmenn þess að launum bikar og páskaegg. Eftir keppni var félagsmönnum boðið í grillveislu.