Fólki bjargað úr Þakgili

Brúin yfir Múlakvísl er farin, segir Íris Marelsdóttir hjá Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra. Verið er að opna fjöldahjálparstöð á Klaustri og í Vík.

Brúin var 128 metra löng, byggð árið 1990. Fjallabaksleiðirnar voru opnaðar fyrir helgi og eru eingöngu færar jeppum og stærri bílum og er fólk hvatt til að fara frekar Fjallabaksleið nyrðri. „Ástæða er til að vara fólk við mengun af völdum brennisteinsvetnis í grennd við ár frá Mýrdalsjökli. Brennisteinsvetni brennir slímhimnur í augum og lungum og lyktar eins og fúl egg. Þegar styrkur brennisteinsvetnis er kominn yfir hættumörk, hættir fólk að finna lyktina af því,“ segir í tilkynningunni.

Björgunarsveitarmenn eru á leið í Álftaver til að rýma og Vegagerðin og björgunarsveitarmenn vinna að því að tryggja brottflutning fólks sem er í Þakgili á Höfðabrekkuheiði. Þar eru nokkrir tugir gesta sem kemst ekki leiðar sinnar en þó amar ekkert að því. Vegurinn er hins vegar á floti og brúin farin.

Vegagerðin reynir að gera hefðbundna leið í Þakgil færa á ný svo fólk geti farið úr Þakgili. Björgunarsveitarmenn frá Vík eru lagðir af stað upp í Heiðardal til að koma fólkinu burt ef hin aðferðin gefst ekki, segir Þorsteinn Þorkelsson hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg í samtali við RÚV.