Fólk þarf að sýna aðgæslu í verki

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Þó að reglur um samkomubann hafi verið rýmkaðar segir lögreglan á Suðurlandi ennþá fulla ástæðu til þess að fara varlega og gæta þess að fylgja þeim reglum sem í gildi eru.

Um liðna helgi voru margir á ferðinni. Rúmlega 11 þúsund bílar fóru um Hellisheiði bæði á laugardag og sunnudag og rúmlega 3.000 bílar um teljara austan við Hellu.

Lögreglan segir að víða þar sem fólk kom saman mátti sjá að örlítil aðgæsla hefði ekki skaðað.

„Lögreglan hvetur fólk til þess að sýna aðgæslu í verki svo við lendum ekki í bakslagi eins og virðist vera að gerast í nálægum löndum. Í upphafi var sagt að við værum öll almannavarnir. Það hefur ekkert breyst og árangurinn sem náðst hefur og nú þarf að verja byggir algerlega á því að allir leggist á eitt og gæti að sóttvörnum,“ segir í dagbók lögreglunnar.