Fólk sjóði drykkjarvatn

Sumarhúsaeigendum við Þingvallavatn er ráðlagt að sjóða drykkjarvatn eða koma með vatn með sér að heiman.

Sýnataka Heilbrigðiseftirlits Suðurlands á vatni í bústöðum í Kárastaðalandi leiddi í ljós að vatn í tveimur bústöðum var óneysluhæft. Ekki er þó hægt að fullyrða að það sé af völdum þess að skólpvökva var dælt út í umhverfið.

Elsa Ingjaldsdóttir, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Suðurlands, sagði í samtali við fréttastofu RÚV, að það kæmi betur í ljós eftir nokkra daga hvort tenging væri þarna á milli. Kólígerlar fundust í sýni úr öðrum bústaðnum en ekki hinum. Þar var um annars konar gerlamengun að ræða. Elsa vill þó ráðlegga fólki að sjóða drykkjarvatn á meðan ekki er meira vitað.

Félag sumarbúastaðaeigenda á Þingvöllum hefur kært Holræsa- og stífluþjónustu Suðurlands til lögreglu en í síðustu viku voru starfsmenn fyrirtækisins staðnir að verki við að losa skólpvökva út í móa í Kárastaðalandi, sem liggur inni á vatnsverndarsvæði Þingvallavatns.