Fólk sé ekki á ferli í Kambalandi

Lögreglan og sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar hafa kannað ábendingar sem bárust frá íbúum í Hveragerði um sprengingu sem talið er að hafi orðið í Kambalandi í síðustu viku.

Ábending barst lögreglu á þriðjudag en talið er að umræddur atburður hafi orðið rétt fyrir helgina.

Að mati sérfræðinga sjást engin merki um sprengingu í Kambalandi og ólíklegt er talið að þar geti leynst ósprungnar sprengjur vegna framkvæmda fyrri ára. Þetta kemur fram í tilkynningu Aldísar Hafsteinsdóttur, bæjarstjóra, til íbúa Hveragerðis.

Til að fyllsta öryggis sé gætt er fólki þó ráðlagt að vera sem minnst á ferli á svæðinu og sjá til þess að börn séu ekki þar að leik þar til að lokaniðurstaða rannsókna liggur fyrir.

Sérfræðingar hafa gengið um allt byggingarsvæðið og metið aðstæður. Meðal annars voru kannaðar holur sem vírar standa upp úr. Mæld var leiðni víranna sem stóðu upp úr holunum en hún á að vera mælanleg ef hvellhettan er heil. Engin leiðni mældist og eru því miklar líkur á því að sprengt hafi verið í umræddum holum á sínum tíma. Í gær fundust engin merki um ósprungið sprengiefni, hvorki kjarna eða dýnamít.

Eftirlitsaðili með framkvæmdum á byggingarsvæðinu tók svæðið út með tilliti til sprengihættu fyrir tveimur árum þegar skipt var um verktaka í framkvæmdinni en síðan þá hefur ekkert sprengiefni verið notað á svæðinu.

Svæðið verður kannað einu sinni enn á allra næstu dögum til að tryggja endanlega að það sé örugg. Aldís bæjarstjóri vill ítreka að ábendingar íbúa hafa verið teknar mjög alvarlega og allt verður gert til að ganga úr skugga um að á svæðinu sé ekki að finna sprengiefni enda væri slíkur frágangur vinnusvæðis forkastanlegur og með öllu óásættanlegur, segir Aldís.