
Íþróttaverslunin H verslun opnar í dag klukkan 18:00 í Austurgarði, nýja verslunarkjarnanum á Selfossi. Þetta er þriðja H verslunin sem opnar og sú fyrsta á landsbyggðinni.
„Ég er búin að suða um það síðan ég byrjaði hjá H verslun að opna eina slíka á Selfossi. Það var búið að skoða alls konar húsnæði en svo bauðst okkur pláss hér í Austurgarði og það var alveg frábært enda er þetta geggjuð staðsetning. Þegar ákvörðun hafði verið tekin þá var allt keyrt í gang. Hér eru næg bílastæði, aðgengið er gott. Það er ekkert vesen að komast til okkar,“ segir Birna Björnsdóttir, verslunarstjóri H verslunar á Selfossi, í samtali við sunnlenska.is.
Gaman að vera koma aftur
Birna er hefur unnið hjá H verslun í þrjú ár í Reykjavík en hefur sjálf búið á Selfossi í tólf ár. „Ég er búin að vera svo spennt fyrir þessu verkefni hérna á Selfossi. Ég bý hér, starfsfólkið mitt er búið að vera að vinna hjá mér í bænum og er að flytja sig hingað yfir. Þetta er bara mjög spennandi,“ segir Birna en verslunin á Selfossi mun skapa þrjú til fögur ný störf til að byrja með.
„Fólk er ótrúlega spennt að við séum að fara að opna. Ég labba ekki um í Krónunni eða Bónus án þess að einhver stoppi mig og spyrji hvenær ég ætli að opna,“ segir Birna og hlær. „Mér finnst líka svo gaman að vera að koma til baka. Ég hef átt stóran viðskiptavinahóp hérna á Selfossi. Það er ótrúlega gaman að vera komin aftur.“

H fyrir heilsu
H-ið í H verslun stendur meðal annars fyrir hreyfingu, heilsu og hamingju. Verslunin á Selfossi mun því ekki aðeins vera með íþróttafatnað heldur ýmislegt annað sem tengist heilsu á einhvern hátt.
„Við erum stærst í Nike, sportvörum, íþróttafatnaði og hversdagsfatnaði. Við erum með Speedo í sundinu. Við erum með NOW vítamínin, Muna vítamínin og Sonnet hreinsivörurnar. Þetta er svona það stærsta hjá okkur.“
„Svo ætlum við líka vera með Calvin Klein til að byrja með í barnafatnaði og bætum aðeins við í Tommy Hilfiger líka, svona þegar á líður. Við erum svona að finna taktinn hvað við viljum gera.“

Ótrúlega skemmtilegt ferli
Birna og hennar starfsfólk er búið að vera á fullu síðustu þrjár vikur að standsetja verslunina á Selfossi. Dagarnir eru langir og lítið sofið og röddin farin en Birna segir að þetta sé bara svo gaman.
„Ég brenn fyrir þetta. Það er bara það sem er. Þetta er svo ótrúlega skemmtilegt, þá verður maður ekki þreyttur. Ég leyfi mér það einhvern tímann seinna,“ segir Birna og hlær dátt.
„H verslun er fyrir allan aldur. Við erum með fatnað frá ungabörnum og upp úr. Það finna allir eitthvað. Það þurfa allir skó, skemmtilegra ef þeir eru flottir. Við erum bara með flotta skó,“ segir Birna kát að lokum.
Gjafapokar verða fyrir fyrstu fimmtíu viðskiptavinina sem versla í H verslun í dag, léttar veitingar og drykkir verða í boði fyrir gesti og 20% afsláttur verður af öllum vörum í versluninni út sunnudag.