„Fólk er ósköp rólegt“

„Fólk er nú ósköp rólegt yfir þessu. Það verður íbúafundur í Vík á mánudaginn með Magnúsi Tuma.

Almannavarnanefnd fundar líka á mánudaginn og tekur ákvörðun um framhaldið, hvað við höfum af íbúafundum. Við erum ágætlega undir það búin ef það kemur Kötlugos.“

Þannig mælir Kjartan Þorkelsson, formaður Almannavarnanefndar Rangárvallasýslu og Vestur-Skaftafellssýslu, í umfjöllun um þetta mál í Morgunblaðinu í dag.

Ekki eru komin fram ótvíræð merki um að gos í Kötlu sé yfirvofandi. Mælst hefur aukin smáskjálftavirkni í Mýrdalsjökli, aukin jarðhitavirkni og eru vísbendingar um útþenslu á eldstöðinni. Gæti það verið langtímaforboði eldgoss. Hliðstæðar umbrotahrinur hafa orðið í Kötlu áður án þess að það hafi leitt til eldgoss.

Ingi Már Björnsson, bóndi að Suður-Fossi í Mýrdalshreppi, segir í Morgunblaðinu í dag að íbúar séu rólegir. „Það væri skást fyrir landbúnaðinn og ferðaþjónustuna að gosið kæmi að hausti. Best yrði ef það kæmi í nóvemberbyrjun, þá er búið að slátra og allt fé komið inn. Nú eru allar heiðar ósmalaðar og það væri ekki gott að fá gos núna,“ segir Ingi Már en fyrstu leitir hefjast um helgina.

Fyrri grein„Undarleg tilfinning“
Næsta greinLæknaskortur á HSu