Folaldasýningu frestað vegna hestapestar

Hestapestin setur enn strik í reikninginn hjá hestamönnum en folaldasýningu var nýverið frestað í Biskupstungum vegna pestarinnar.

Hrossaræktarfélag Biskupstungna neyddist nýverið til að afboða auglýsta folaldasýningu því að í ljós kom að mörg folöldin voru enn illa á sig komin af völdum pestarinnar.

Hestapestin virðist vera lúmsk í folöldunum því þau eru nær einkennalaus og svo virðist sem að þau hafi fengið pestina síðar en fullorðnir hestar, hugsanlega vegna þess að þau hafi fengið mótefni með móðurmjólkinni.

Að sögn Knúts Ármanns, formanns Hrossarræktarfélags Biskupstungna, bárust þeim æ fleiri fréttir af veikum folöldum, bæði af þeirra svæði og víðar. Minna hefur því verið um folaldasýningar um landið nú í haust.

Knútur sagði þó að Hrossaræktarfélagið ætlaði ekki að leggja árar í bát heldur yrði staðan könnuð upp úr áramótum.