Föðurland frá Vík til Kanarí

Víkurprjón í Vík vinnur nú að því að afgreiða stærstu pöntun sem fyrirtækið hefur fengið í áraraðir.

Sjómenn á Kanaríeyjum bíða nú eftir 400 settum af ullarnærfötum og 900 pörum af ullarsokkum. Sjómennirnir fengu að prófa ullarnærfötin og voru það ánægðir með ullina að ákveðið var að panta 400 ullarboli og 400 ullarbuxur, allt í ljósgráum lit. Pöntunin barst með milligöngu íslensks útgerðarfélags en Víkurprjón hefur ekki áður selt erlendum sjómönnum ull.

Þetta kemur fram á fréttavefnum Vísi. Þar er haft eftir Þóri N. Kjartanssyni, framkvæmdastjóra, að pöntunin hafi borist í ágúst en stefnt sé á að hún verði send utan í október. Þórir segir pöntunina koma á hentugum tíma því nú sé ferðamannatímanum að ljúka og minna að gera hjá fyrirtækinu. Veturnir fara gjarnan í að safna upp lager fyrir komandi sumar en lagersöfnun þarf aðeins að bíða þetta árið hjá Víkurprjóni.

Fyrri greinVinna að hefjast í Landeyjahöfn
Næsta greinVilja „eðlilega endurgreiðslu“ fyrir hitaveituna