Flýtti sér mikið með lögguna á hælunum

Lögreglan á Hvolsvelli var með kyrrstöðumælingar austan við Hvolsvöll í morgun þegar ökumaður bifreiðar ók framhjá mælingarpósti á nokkrum hraða og jók svo hraðann umtalsvert þegar framhjá var komið.

Lögreglan elti bifreiðina sem hélt áfram að auka hraðann og hraðast mældist hún á 154 km/klst hraða. Lögreglan elti bílinn nokkurn spöl þar sem ökumaðurinn hraðskreiði tók ekki eftir forgangsljósum og öðrum merkjum sem lögreglan gag. Hann hélt ótrauður áfram að taka framúr öðrum bílum þangað til hann sá loksins lögreglubílinn.

Þarna var á ferðinni erlendur ferðamaður sem gaf þá skýringu að hann væri að verða of seinn í dagsferð á ótilgreindum ferðamannastað.

Brot hans varðar sekt upp á 130 þúsund krónur og sviptingu ökuréttinda í einn mánuð. Málið var afgreitt samkvæmt venju.

Annars hefur umferðin gengið vel í umdæmi lögreglunnar á Hvolsvelli og ökumenn verið til fyrirmyndar. Lögreglan er búin að vera með virkt hraðaeftirlit um helgina og mun vera það áfram yfir helgina.

Fyrri greinHátíð krossins á Úlfljótsvatni
Næsta greinEllert ráðinn framkvæmda- og umhverfisstjóri