Flying Tiger flytur í nýja miðbæinn

Arnar Þór Óskarsson, markaðsstjóri Flying Tiger á Íslandi. Ljósmynd/Flying Tiger

Nú í sumar mun ný og glæsileg Flying Tiger Copenhagen verslun opna í nýja miðbænum á Selfossi. Flying Tiger Copenhagen var áður til húsa að Austurvegi 58 á Selfossi en lokaði nýverið.

„Þegar verslunin opnaði á Selfossi 2015, þá var hún upphaflega hugsuð sem tilraunaverkefni sem við vorum spennt fyrir að prófa, en staðsetningin á versluninni var frekar sérstök miðað við aðrar verslanir okkar, það er við umferðargötu en ekki í annaðhvort verslunargötu eða verslunarmiðstöð,“ segir Arnar Þór Óskarsson, markaðsstjóri Flying Tiger á Íslandi, í samtali við sunnlenska.is.

„Einnig var áhugavert að opna verslun í svo litlu bæjarfélagi. Það er gefið að verslun eins og okkar, sem býður frábærar vörur á eins lágu verði og við gerum, þá þarf umtalsverða traffík viðskiptavina til að ná veltu sem uppfyllir rekstrarmarkmið.“

„Verslunin fékk svo andlitslyftingu með nýju skipulagi og nýjum innréttingum 2017 og gekk fyrirtækið á þeim tíma einnig í gegnum nafnabreytingu og breyttist nafnið úr Tiger yfir í Flying Tiger Copenhagen. Verslunin hefur dafnað vel síðan og hafa bæjarbúar og nærsveitungar tekið okkur gríðarlega vel,“ segir Arnar en þess má geta að Flying Tiger á Íslandi fagnar einmitt 20 ára afmæli sínu á árinu.

Auk verslunarinnar á Selfossi má finna þrjár verslanir Flying Tiger Copenhagen á höfuðborgarsvæðinu og eina á Akureyri. Ljósmynd/Flying Tiger

Nýi miðbærinn heillandi
„Nýi miðbærinn heillaði okkur frá því að hann var fyrst kynntur og höfum við fylgst vel með þróun mála þar og í bænum öllum. Þegar svo þokaðist nær opnun miðbæjarins þá bauðst okkur þar verslunarrými sem við erum gríðarlega spennt fyrir og því var tekin ákvörðun um að flytja verslunina.“

Arnar segir að nýja Flying Tiger verslunin mun opna eigi síðar en 1. júlí næstkomandi en þá er jafnframt stefnt að opnun fyrsta áfanga nýja miðbæjarins.

„Nýi miðbærinn heillar okkar gríðarlega mikið og byggingarnar eru einstaklega sjarmerandi í þessum gamla stíl. Skipulagið fyrir svæðið þykir mér mjög vel unnið og mikið er lagt upp úr réttri samsetningu verslana, veitingastaða og þjónustu. Einnig, eins og ég kom inn á að ofan, þá var staðsetningin á Austurveginum fyrir Flying Tiger verslun öðruvísi en við eigum að venjast og færumst við því nær því umhverfi sem við þekkjum og bindum við miklar vonir við svæðið,“ segir Arnar.

Nýi miðbærinn á Selfossi. Mynd/Batteríið

Danska tengingin sterk
Flying Tiger verslunin verður í einu rými í tveimur sambyggðum húsum – Smjörhúsinu og Apótekinu að Brúarstræti 2. Opið verður á milli og gengið inn á einum stað. Arnar segir að staðsetning verslananna sé engin tilviljun.

„Eins og margir vita, þá eru öll húsin í nýja miðbænum endurbyggingar á gömlum sögufrægum húsum sem hafa einhverra hluta vegna horfið í gegnum árin. Bæði þessi gömlu hús stóðu í Reykjavík og voru rifin fyrir mörgum árum síðan. Smjörhúsið var reist 1797 og svo frá árinu 1909 var þar starfrækt verslun undir danska vörumerkinu Irma, sem eru matvöruverslanir sem eru enn þann dag í dag starfræktar í Danmörku.“

„Í Apótekinu var frá árinu 1834 starfrækt Reykjavíkurapótek sem apótekarinn Oddur Stefánsson Thorarensen stofnaði með sérstöku leyfisbréfi frá frá konungi til að stofna apótek á Íslandi. Bæði húsin hafa því mikla tengingu við Danmörku líkt og við gerum, en Flying Tiger Copenhagen er danskt fyrirtæki.“

„Nýja Flying Tiger verslunin verður heldur minni í sniðum og til að byrja með þá verður svipaður fjöldi stöðugilda og sjáum við svo hver þróunin verður,“ segir Arnar bjartsýnn að lokum.

Fyrri greinSelfoss mætir Þrótti í bikarnum
Næsta greinHamar byrjar vel gegn Vestra