Fluttur með þyrlu eftir árekstur á Suðurlandsvegi

Ljósmynd/Landsbjörg

Einn var fluttur með þyrlu Landhelgisgæslunnar á bráðamóttöku Landspítalans eftir umferðarslys á Suðurlandsvegi, rétt austan við Hvítanes í V-Landeyjum um klukkan 15:30 í dag.

Þar var bifreið var ekið aftan á kyrrstæða bifreið sem stóð í vegkantinum. Morgunblaðið hefur eftir Sveini Kristjáni Rúnarssyni, yfirlögregluþjóni, að um hafi verið að ræða árekstur fólksbíls og jeppa.

Einn var fluttur með þyrlu til Reykjavíkur og annar með sjúkrabifreið á heilsugæsluna á Hellu til skoðunar. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurlandi er sásem fluttur var með þyrlunni var töluvert slasaður en þó ekki lífshættulega.

Þyrlan var við æfingar á Suðurlandi þegar útkallið barst og gat því farið beint á slysstað en sá slasaði var kominn undir læknishendur á Landspítalanum innan við klukkustund eftir að útkallið barst.

Lögreglan á Suðurlandi fer með rannsókn málsins.

Fyrri greinVonast til að heimavist FSu komist inn á fjármálaáætlun
Næsta greinAusturvegur lokaður í kvöld