Fluttur með þyrlu á sjúkrahús eftir að stór grafa valt

Karlmaður var fluttur með þyrlu Landhelgisgæslunnar á slysadeild í Reykjavík eftir að stór hjólagrafa sem hann ók valt af tengivagni á sveitabæ á Rangárvöllum, sunnan við Hvolsvöll, í gærkvöldi.

Maðurinn var að aka gröfunni af vagninum þegar hún valt.

Slysið varð um klukkan hálf ellefu í gærkvöldi og var mikill viðbúnaður vegna þess hjá lögreglu, sjúkraflutningum og björgunarsveitum, sem kallaðar voru á vettvang ásamt þyrlu Gæslunnar.

Talsverðan tíma tók að ná manninum út úr gröfunni en meðal annars voru spilvírar á björgunarsveitarbílnum notaðir til þess að lyfta henni. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu var maðurinn með meðvitund allan tímann og minna slasaður en í upphafi var talið.

Fyrri greinMikil íbúafjölgun í V-Skaftafellssýslu
Næsta greinBreyttu skilti Krambúðarinnar í skjóli nætur