Fluttur á slysadeild eftir bílveltu

Ökumaður fólksbíls var fluttur á slysadeild í Reykjavík eftir að bíll hans valt á Hellisheiði um klukkan níu í kvöld. Bíllinn er gjörónýtur en mikil hálka er á heiðinni.

Í fyrstu var talið að maðurinn væri fastur í bílnum og var klippubíll frá Brunavörnum Árnessýslu í Hveragerði kallaður á vettvang. Maðurinn var hins vegar kominn út úr bílnum þegar viðbragðsaðilar komu á staðinn og kvartaði meðal annars undan bakmeiðslum.

Gríðarleg hálka er á Heiðinni og má rekja tildrög slyssins til þess að ökumaðurinn missti stjórn á bílnum í ísingu.

Fyrri greinHlaupvatn komið í Gígjukvísl
Næsta grein„Skilaboðin skýr hjá íbúum”