Fluttu á Selfoss frá Bandaríkjunum til að opna indverskan veitingastað

Sush og Monish Mansharamani reka veitingastaðinn Arekie í miðbæ Selfoss. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Indverski veitingastaðurinn Arekie opnaði í miðbæ Selfoss þann 1. apríl síðastliðinn. Staðurinn hefur heldur betur slegið í gegn hjá heimamönnum sem kunna vel að meta þessa viðbót við matarmenningu Suðurlands.

Eigendur og stofnendur Arekie eru hjónin Sush og Monish Mansharamani en þau fluttu á Selfoss frá Bandaríkjunum fyrir sex mánuðum, gagngert til að opna staðinn.

Blaðamaður sunnlenska.is settist niður með þessum viðkunnalegu hjónum síðdegis á föstudegi. Þá höfðu þau lausa stund eftir hádegistraffíkina og áður en kvöldmatartraffíkin myndi byrja.

„Það er búið að vera mjög mikið að gera hjá okkur síðan við opnuðum. Kvöldin eru fullbókuð, venjulega frá fimmtudögum til laugardaga. Á miðvikudögum fáum við mikið af stórum hópum, eins og til dæmis fólk af vinnustöðum,“ segir Monish.

Arekie opnaði í miðbæ Selfossi þann 1. apríl síðastliðinn. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Sunnlendingar elska indverskan mat
Selfyssingar og nærsveitungar hafa tekið Arekie opnum örmum. „Ég myndi segja að 90% viðskiptavina okkar séu heimamenn núna en þegar sumarið er komið fyrir alvöru þá held ég að eigum eftir að sjá meira af ferðamönnum. Við elskum samfélagið hér og við elskum að þjónusta heimamenn. Hingað til hefur þetta verið frábært.“

Monish segir að það hafi komið þeim svolítið á óvart þessar gífurlega góðu móttökur sem staðurinn hefur fengið. „Það er frábært að vita að Íslendingar elski indverskan mat. Við kryddum matinn þó ekki jafn mikið og hefðbundinn indverskan mat,“ segir Monish og brosir.

Hjónin segja að butter chicken churros og chicken tikka masala séu vinsælustu réttirnir á matseðlinum hjá þeim. „Fólk er líka mjög hrifið af palak paneer sem er ferskur indverskur ostur. Það er eitthvað nýtt fyrir Íslendinga,“ segir Sush og bætir því við að á næstu vikum munu þau fjölga réttunum á matseðlinum enn frekar.

Staðurinn er hinn glæsilegasti en spænski listamaðurinn Juan Pictures Art málaði meðal annars myndir á veggi hans. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Draumur sem rættist
Sem fyrr segir fluttu hjónin á Selfoss fyrir sex mánuðum en þau bjuggu áður í Oregon í Bandaríkjunum þar sem þau reka ennþá tvo veitingastaði.

„Afhverju Ísland? Í stuttu máli þá heimsóttum við Ísland í fyrsta skipti árið 2019. Við elskuðum landið. Á sama tíma vorum við að plana að opna fyrsta staðinn okkar í Bandaríkjunum og við sögðum að einn daginn myndum við opna veitingastað hér og sá draumur rættist í fyrra,“ segir Monish og þau hjónin brosa bæði.

Þakklát fyrir góðar og hlýjar viðtökur
Monish hefur komið árlega til Íslands síðustu ár þar sem hann fer í ljósmyndaferðir en hann kennir ljósmyndun og er með vinnustofur. „Þegar ég kom hingað á síðasta ári þá sá ég tækifæri. Ég spurði Sush hvort hún vildi opna veitingastað hér, hvort við værum tilbúin. Hún sagði já, hvers vegna ekki? Svo að Selfoss var staðurinn.“

Hjónin kunna afar vel við sig á Selfossi. „Við erum virkilega þakklát fyrir að vera hér og við elskum samfélagið hér. Við elskum hvað við höfum fengið góðar viðtökur og hvernig það hafa einhvern veginn allir faðmað okkur, því að okkur líður ekki eins og ókunnugum hér heldur hluti af samfélaginu. Það er eitthvað sem við tölum oft um og við kunnum virkilega að meta hvað allir eru þolinmóðir og elskulegir við okkur,“ segir Sush glöð að lokum.

Fyrri greinSelfoss kom til baka með stæl
Næsta grein„Partýtónleikar með götugrill-ívafi“