Flutti sig nær viðskiptavinunum

Birna Kristín Friðriksdóttir, opnaði nýverði verslun og saumastofu í Sunnumörk í Hveragerði. Þar selur hún framleiðslu sína undir vörumerkinu VOL CAP.

Vörurnar hannar hún sjálf, en um er að ræða ullarvörur; peysur, sjöl, kraga, húfur og teppi. Birna er textílkennari og hefur numið textílhönnun í Danmörku.

Hún hóf að framleiða vörurnar fyrir þremur árum og fyrsta sem hún hannaði var húfa sem hún nefnir Hraunfoss, en hugmyndina fékk hún í miðju eldgosi á Fimmvörðuhálsi. Allar vörurnar eru með skírskotun til íslenskrar náttúru, því auk Hraunfossins eru framleiðslulínurnar Norðurljós, Frostrósir og Skófir.

Birna skreytir ullina með silki og marinóull með aðferð sem kallast nálaþæfing. Tengingin við náttúruna er nokkuð rökrétt þar sem hún segist vera mikill áhugamaður um náttúruna og hefur starfað sem leiðsögumaður á Norðurlandi.

Birna er nýflutt á Suðurland, bjó áður á Grenivík og hafði starfsemi sína þar til að byrja með. Þegar hún frétti af húsnæði í Sunnumörk greip hún tækifærið, enda nauðsynlegt að vera sýnilegur með framleiðsluna, ekki síst gagnvart erlendum ferðamönnum, sem fara margir þar um. Hún segir staðsetninguna lofa góðu, og verslunin fari vel af stað.

Hún segist þurfa að hafa sig alla við í framleiðslunni, en hún selur vörur sínar í nokkrum verslunum og þjónustustöðum um land allt, þar af þremur vinsælum ferðamannastöðum á Suðurlandi. Hún reiknar þó ekki með því að fjölga hjá sér í framleiðslunni, að minnsta kosti ekki strax, enda hafi margir farið flatt á því að stækka of hratt.

Fyrri greinEkki stendur til að auka vinabæjastarf
Næsta greinFyrrverandi formenn sæmdir gullmerki