Flutti búferlum til að taka við pósthúsinu á Selfossi

Guðrún Hulda Waage, stöðvarstjóri Póstsins á Selfossi. sunnlenska.is/Jóhanna SH

Guðrún Hulda Waage, stöðvarstjóri Póstsins á Selfossi, flutti búferlum með fjölskyldu sinni frá Borgarnesi á síðasta ári. „Ég sótti um stöðuna á Selfossi og fékk hana. Það var mikil áskorun fyrir alla fjölskylduna að flytja með eiginmann og börn á milli landshluta. En ég sé ekki eftir þeirri ákvörðun. Okkur leið mjög vel í Borgarnesi en kominn tími til að breyta til. Fólkið á Suðurlandi tók mjög vel á móti okkur og það eru allir fjölskyldumeðlimir ánægðir með breytinguna,” segir Hulda eins og hún er alltaf kölluð.

Hulda hefur starfað í tæp átta ár hjá Póstinum. „Ég hóf störf hjá fyrirtækinu 2015 og þá í Borgarnesi þar sem ég var stöðvarstjóri í sex ár. Nú hef ég verið stöðvarstjóri hér á Selfossi í rúmt ár. Þetta hefur gengið vonum framar og ég er svo heppin að vinna með frábæru fólki hér á pósthúsinu,” segir Hulda en hún á ættir sínar að rekja í Fljótshlíðina, á Eyrarbakka og í Landsveit.

Annað stærsta pósthúsið á landsbyggðinni
„Við erum þrjátíu og tvö sem störfum á pósthúsinu á Selfossi, erum annað stærsta pósthús á landsbyggðinni. Við keyrum út í sjö bæjarfélög og tíu sveitir. Það er því nóg að gera. Samstarfið eftir lokanir pósthúsanna á Hellu og Hvolsvelli hefur gengið mjög vel og eiginlega framar vonum. Það eru sex starfsmenn búsettir á Hellu og Hvolsvelli sem starfa á pósthúsinu á Selfossi og þjónusta þessi tvö bæjarfélög.

Við teljum okkur eiga gott samstarf við íbúa Suðurlands. Þetta er stórt svæði sem við sinnum og það er krefjandi en skemmtilegt að láta allt ganga upp. Við reynum alltaf að gera okkar besta í þjónustu við viðskiptavini. Það koma oft upp einhver atvik sem þarf að sjálfsögðu að leysa og við leggjum okkur fram um að leysa málin hratt og vel,“ segir Hulda.

Fjöldi bréfasendinga hefur dregist saman um 75% en á sama tíma hafa pakkasendingar margfaldast. sunnlenska.is/Jóhanna SH

Nýtt póstbox við Hornið á Selfossi
Miklar breytingar hafa orðið á póstþjónustu á síðari árum. Fjöldi bréfasendinga hefur dregist saman um 75% en á sama tíma hafa pakkasendingar margfaldast. Pósturinn leggur mikla áherslu á að aðlagast hratt og örugglega og kappkostar að þróa þjónustu sína í takt við breyttar þarfir og kröfur neytenda. Póstboxum hefur fjölgað um allt land og Suðurlandið er engin undantekning. Nú er verið að taka nýtt póstbox í notkun á Selfossi.

„Við erum með póstbox á Selfossi, Hveragerði, Þorlákshöfn, Hellu og Hvolsvelli og þau hafa verið mjög vinsæl hjá íbúum og mikið notuð. Við erum að taka í notkun nýtt póstbox hjá Krambúðinni við Tryggvagötu eða í Horninu, eins og það er kallað hér í bænum. Þetta er annað póstboxið sem sett er upp á Selfossi og það er mikilvægt að bæta við öðru hér í bænum þar sem þetta hefur verið gríðarlega vinsælt. Fólk er hrifið af þessari tegund þjónustu að geta farið í póstboxið þegar því hentar á öllum tímum sólarhrings, alla daga ársins. Það sem er svo þægilegt við póstboxin er að þau eru opin allan sólarhringinn, alla daga ársins. Svo erum við með laugardagsáfyllingar líka þannig að það er fyllt á boxin sex daga vikunnar. Það hafa orðið miklar breytingar á póstþjónustu á síðustu árum í takt við þarfir viðskiptavina. Við lifum í hröðu samfélagi þar sem tækninni fleytir fram,“ segir hún.

Hulda segir að fyrirtækjaþjónusta póstsins sé líka mjög öflug og standi vaktina vel. „Það er mikil uppbygging á Selfossi og víðar í nágrannabæjum hér á Suðurlandi þar sem fyrirtækin dafna vel. Þeim fjölgar og þau fara stækkandi þannig að það er nóg að gera á fyrirtækjasviðinu okkar. Við erum í mjög góðu samstarfi við fyrirtæki á Suðurlandi og það er ánægjulegt hversu vel það hefur gengið.“

„Ég er svo heppin að vinna með frábæru fólki hér á pósthúsinu,” segir Hulda. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Geymdi pakka á skrifstofunni sinni
Hulda segist fullviss um að við Íslendingar séum almennt þjónustuliprir. „Það er eftirminnileg saga af þýskum viðskiptavini sem kom til mín á pósthúsið en hann var að byggja sér sumarbústað hér á landi. Hann var að fara heim til Þýskalands og átti von á pakka þaðan, sem var ókominn. Smiðurinn hans var að bíða eftir pakkanum sem átti að fara í sumarbústaðinn. Ég tók að mér að taka á móti pakkanum og lofaði að geyma hann þar til hann yrði sóttur. Pakkinn kom stuttu seinna og var hvorki meira né minna en rúmir tveir metrar að stærð. Ég geymdi hann inn á skrifstofu hjá mér í nokkra daga þar til smiðurinn kom loks að sækja hann. Ég þurfti að klofa yfir hann dag eftir dag til að komast inn á skrifstofuna,“ segir Hulda og hlær. „Þjóðverjinn var mjög þakklátur og fannst þetta sérlega góð þjónusta. Það er gaman að segja frá því að við urðum góðir vinir í kjölfarið og það mynduðust vináttubönd milli fjölskyldna okkar,“ bætir hún við.

Gleði og húmor skiptir ótrúlega miklu máli
Hulda nefnir hve mikilvægt það er að það sé góður mórall á vinnustaðnum. „Gleði og húmor skiptir ótrúlega miklu máli á vinnustað. Ég held að ég geti að fullyrt að hér séu allir ánægðir í vinnunni og þjónustuliprir. Ég er ákaflega stolt af starfsfólkinu hér og finnst bara heiður að fá að vera stöðvarstjóri á Selfossi. Það er nóg að gera fram að jólum en þessi tími hefur ákveðinn sjarma. Starfsfólkið er í jólafíling og staðráðið í að hafa gaman þótt það sé mikið að gera. Svo erum við með eitt stykki tryllitæki í bænum sem heitir Magni en hann er tæknilegur pakkaflokkari. Hann er fimm sinnum öflugri en forverinn og það er þvílíkur munur að hafa svona græju, sérstaklega í jólatörninni,“ segir Hulda að lokum.

Fyrri greinFyrsta skóflustungan að sex íbúða kjarna fyrir fatlað fólk
Næsta greinSelfoss sat eftir í stjörnuryki