Flutningur Markaðsstofunnar leggst illa í Aldísi

Markaðstofa Suðurlands hefur flutt skrifstofu sína úr Hveragerði og á Selfoss. Flutningurinn leggst ekki vel í bæjarstjóra Hveragerðisbæjar.

Davíð Samúelsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri í stað Ólafs Hilmarssonar en skrifstofan verður lokuð til 12. júlí vegna sumarleyfa.

Flutningurinn fer ekki vel í bæjarstjóra Hveragerðisbæjar sem lætur að því liggja á vefsíðu sinni www.aldis.is að hann sé að undirlagi bæjaryfirvalda í Árborg.

Segir Aldís orðrétt: „Minntist þá umræðu um aðkomu Árborgar að Markaðsstofunni og ávæning um að skilyrði fyrir þátttöku þeirra væri að Markaðstofan yrði staðsett á Selfossi. Vona ég svo sannarlega að það sé ekki rétt því lágt þætti mér þá stærsta sveitarfélagið á svæðinu leggjast að leggja þannig ofurkapp á að flytja eitt, ítreka eitt stöðugildi héðan frá Hveragerði til Selfoss þar sem fjöldi opinberra stöðugilda er þegar fyrir hendi.“