Flugveisla á Hellu um helgina

Ljósmynd: Motiv/Jón S

Nú um helgina mun flugáhugafólk, fagmenn og fjölskyldur þeirra hvaðanæva að af landinu leggja leið sína á flughátíðina Allt sem flýgur, sem haldin verður á Helluflugvelli.

Hátíðin sameinar ólíkar greinar flugs í einstaka og líflega flughátíð þar sem má meðal annars sjá svifflug, þyrlur, sjóflugvél, fallhlífarstökk, listflug, einkaflugvélar, dróna, fisflug og svifvængjaflug – allt sem flýgur!

„Markmið okkar er að efla áhuga á flugi og skapa vettvang þar sem almenningur og flugfólk geta hist, fræðst og notið saman þeirrar fjölbreytni sem einkennir íslenskt flugsamfélag,“ segir í fréttatilkynningu frá skipuleggjendum hátíðarinnar.

Svæðið verður ein samfelld flugsýning frá föstudegi til sunnudags, þar sem hægt er að skoða vélarnar, sitja við flugbrautina og fylgjast með alls konar loftförum á svæðinu leika listir sínar og njóta sólarinnar á sama tíma.

Það verða vélar í lofti og fólk á ferli alla helgina. Hápunktur krakkanna er karamellukastið á laugardeginum þar sem sælgæti rignir yfir svæðið og allir safna því sem þeir geta, um kvöldið mæta svo gestir hátíðarinnar á ekta íslenska kvöldvöku í flugskýlinu. Auk þess verður á svæðinu fjölbreytt flugtengd skemmtun svo sem flugdrekar, flugvélar til þess að skoða, litli flugturninn, o.fl.

Allt sem flýgur á Facebook

Fyrri greinDúndur stemning á upphitunartónleikunum
Næsta greinTaggaði óvart tíu manns á brúðkaupsmynd