Flugeldasýningunni á Jökulsárlóni frestað til sunnudagskvölds

Upplýstir ísjakarnir eru baðaðir í litum og birtu frá stórkostlegri flugeldasýningu í magnaðri umgjörð náttúrunnar sem skapar einstaka upplifun fyrir áhorfendur. Ljósmynd/Aðsend

Vegna mjög slæms veðursútlits hefur verið tekin sú ákvörðun um að fresta árlegri flugeldassýningu á Jökulsárlóni um einn sólahring. Sýningin verður sunnudagskvöldið 18. ágúst kl. 23:00.

„Veðurspáin er það slæm að ekki er boðlegt að fara senda fólk akandi á Jökulsárlón á laugardagskvöldið og jafnframt munum við ekki geta farið með flugeldana út á lónið sjálft vegna mikils vinds og öldugangs. Við hörmum þessa seinkun en því miður ráðum við ekki við veðrið,“ segir í tilkynningu frá Björgunarfélagi Hornafjarðar, sem hefur veg og vanda af sýningunni.

2.500 gestir í fyrra
Sýningin er löngu orðin að árvissum viðburði og þetta er í nítjánda sinn sem hún er haldin. Gestum sýningarinnar hefur fjölgað jafnt og þétt. Í fyrra sóttu sýninuna um 2.500 manns.

Undirbúningur fyrir sýninguna hefst fyrr um daginn þegar menn á gúmmíbáti fara um lónið og raða 150 friðarkertum á ísjaka. Áður en sýningin hefst  er kveikt á kertunum og flugeldum er skotið upp á nokkrum stöðum á lóninu. Sýningin varir í u.þ.b. 20 mínútur. Upplýstir ísjakarnir eru baðaðir í litum og birtu frá stórkostlegri flugeldasýningu í magnaðri umgjörð náttúrunnar sem skapar einstaka upplifun fyrir áhorfendur.

Aðgangseyririnn rennur óskiptur til Björgunarfélagsins
Aðgangseyrir sýningarinnar er 1.500 kr. á mann og hægt er að greiða við innganginn. Aðgangseyrir rennur óskiptur til Björgunarfélagsins sem kemur sér vel við þau fjölmörgu verkefni sem félagið tekur að sér. Frítt er inn fyrir börn 12 ára og yngri.

Það er tilvalið að gera sér ferð á þessa einstöku flugeldasýningu og styrkja um leið gott málefni.

Upplýsingar um hvar hægt er að kaupa miða í forsölu á sýninguna er hægt að nálgast hér.

Fyrri greinLeitarsvæðið þrengt
Næsta greinListaverk tileinkað unglingum