Flugeldasölumenn að springa úr spenningi

Flugeldasalan á Suðurlandi hefur gengið vel það sem af er en stærsti dagurinn í sölu er alltaf gamlársdagur.

Það má segja að flugeldasölumenn séu að springa úr spenningi fyrir morgundeginum enda alltaf líf og fjör í sölunni á þessum síðasta degi ársins.

Magnús Einarsson, formaður Björgunarsveitarinnar Dagrenningar á Hvolsvelli, segir að flugeldasalan hafi gengið vel og verið svipuð og í fyrra. „Veðurspáin fyrir annað kvöld er mjög góð þannig að við erum að vonast til þess að fólk taki við sér og verði duglegt að skjóta upp. Hér verður allur tiltækur mannskapur í húsi á morgun og við tökum vel á móti viðskiptavinum okkar.“

Sömu sögu sagði Guðjón Emilsson, gjaldkeri Björgunarfélags Árborgar. „Dagurinn í dag er búinn að vera fínn en stóri dagurinn er á morgun. Ég á von á því að það verði fullt hús frá því að við opnum klukkan tíu í fyrramálið og þangað til við lokum klukkan fjögur. Það er alltaf gaman að standa í þessu og hingað kemur sama fólkið ár eftir ár til þess að styðja við bakið á okkur.“

Sævar Þór Gíslason hefur staðið vaktina í flugeldasölu knattspyrnudeildar Selfoss í rúm tuttugu ár. „Salan hefur gengið mjög vel hjá okkur, við vorum með afsláttarkvöld fyrir stuðningsmenn okkar í gærkvöldi og það gekk frábærlega. Hér geta menn byrgt sig vel upp af flugeldum á góðu verði fyrir kvöldið og gera það örugglega því veðurspáin er mjög góð.“


Sævar Þór Gíslason hefur áratuga reynslu í flugeldasölunni hjá knattspyrnudeild Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl


Magnús Einarsson, formaður Dagrenningar, með vaskan hóp með sér sem er til í slaginn á gamlársdag. sunnlenska.is/Guðmundur Karl