Flugeldasalan hafin

„Þetta er lang stærsta fjáröflunin hjá okkur og við treystum því að heimamenn standi við bakið á öflugu björgunar- og forvarnarstarfi.“

Þetta segir Ármann Ingi Sigurðsson, formaður Björgunarfélags Árborgar, en flugeldasala hófst í dag.

Salan fer hægt af stað eins og venjulega en nær hámarki á gamlársdag. „Það er langstærsti dagurinn hjá okkur,“ segir Ármann og bætir við að á hverju ári séu einhverjar nýjar vörur í boði. Þó séu það sömu vörurnar sem séu vinsælastar, Kappatertur og fjölskyldupakkar. „Og verðið er mjög sambærilegt frá því í fyrra, sumt hefur hækkað en annað lækkað, en flestar vörur eru á sama verði.“

Auk flugeldasölunnar sér Björgunarfélagið um brennuna á Selfossi á gamlárskvöld. Hún er kl. 20:00 við Selfossflugvöll.