Flugdagur og flugsýning á laugardag

„Við bjóðum alla hjartanlega velkomna til okkar á laugardaginn til að fagna 40 ára afmælinu með okkur og taka þátt í flugdeginum og flugsýningu. Það stefnir í glæsilegan dag sem enginn má missa af.“

Þetta segir Helgi Sigurðsson, formaður Flugklúbbs Selfoss, en klúbburinn heldur mikla afmælishátíð á Selfossflugvelli á morgun, laugardaginn 17. maí.

Svæðið opnar kl. 10 en flugsýningin og aðaldagskráin mun standa frá 13:30 til 15:30. Á þeim tíma verður boðið upp á listflug, þyrla Landhelgisgæslunnar kemur í heimsókn, fallhlífastökkvarar frá Hellu munu lenda á vellinum, boðið verður upp á útsýnisflug, karamellukast og sjaldgæfar og heimasmíðaðar flugvélar verða til sýnis.

Þá mun Flugskólinn Geirfugl kynna starfsemi sína og hægt verður að fara í fyrsta flugtímann.

Félagar í Flugklúbbi Selfoss er 120 talsins en fræðast má um félagið á nýrri heimasíðu þess.