Flúðir um versló fer vel af stað

Fjölskyldu- og bæjarhátíðin Flúðir um versló hófst í gærkvöldi, en þegar hafa fjölmargir gestir komið sér fyrir á tjaldsvæðinu á Flúðum og er búist við fleirum í dag.

Samkvæmt upplýsingum frá forsvarsmönnum hátíðarinnar höfðu viðbragðsaðilar á svæðinu engar fréttir af óhöppum eða útköllum síðastliðna nótt.

Hátíðin hófst með tónleikum KK-bands í Félagsheimilinu á Flúðum. Tónleikarnir voru vel sóttir og var stemmningin með besta móti þegar KK og félagar spiluðu öll sín bestu lög.

Hátíðin heldur áfram í dag og endar dagurinn með stórdansleik í Félagsheimilinu í kvöld þar sem sjálfur Páll Óskar mun hefja sína verslunarmannahelgi með alvöru Palla-balli. Búið er að útbúa salinn með bestu mögulegu hljóðgræjum og ljósashow’ið verður stórfenglegt.

Sem fyrr segir er von á fjölda gesta á svæðið í dag og lítur vel út með veður fyrir helgina. Forsvarsmenn hátíðarinnar vilja minna á að aldurstaksmark á tjaldsvæðið er 23 ár.

Fyrri greinSuðurlandsvegur lokaður vegna umferðarslyss
Næsta greinÓvissustigi lýst yfir vegna Skaftárhlaups