Flúðaskóli fær veglegan styrk

Flúðaskóli fékk á dögunum styrk úr Erasmus + áætluninni að upphæð 17.990 evrur, eða tæpar 2,7 milljónir króna, til að senda níu kennara á mismunandi námskeið í tengslum verkefnið "Heimskt er heimaalið barn".

Að sögn Guðrúnar Pétursdóttur, skólastjóra, er markmiðið að innleiða nýja kennsluhætti í takt við þróun samfélagsins og undirbúa nemendur undir erlent samstarf og fjölþjóðlegt samfélag.

„Kennararnir munu öðlist þekkingu og hæfni til að geta útskrifað nemendur úr grunnskóla með bjargir til að takast á við nútímasamfélag í alþjóðlegu samhengi. Nemendurnir munu hafa góða vitund og þekkingu á mikilvægi sjálfbærni og geti nýtt sér hana í daglegu lífi,“ segir Guðrún.

Markmið Erasmus+ áætlunarinnar eru m.a. að styðja verkefni sem miða að því að efla grunnþætti eins og læsi og stærðfræði, ýta undir sköpunargáfu og frumkvæði nemenda, vinna gegn brotthvarfi, innleiða upplýsingatækni og almennt efla gæði í menntun á öllum skólastigum og í atvinnulífi.

Guðrún segir að það sé mikill fengur fyrir skólann að hljóta svo ríflegan styrk til þessa verkefnis.

Fyrri greinDróst áfram með hesti
Næsta greinTruflaðar lakkrístrufflur