„Flot er fyrir konur, börn og karla“

Næstkomandi laugardag verður miðnætur samflot í Gömlu lauginni, náttúrulauginni við Garð í Hrunamannahreppi.

„Flotið og Samflotið byggir á tilvist Flothettunnar góðu sem er framúrskarandi íslensk hönnun Unnar Valdísar Kristjánsdóttur en Flothettan og Fótaflotið gera það að verkum að við getum flotið óhult í vatni,“ segir Guðrún Kristjánsdóttir en hún og Jóhanna systir hennar standa fyrir samflotinu ásamt Float. Þess má geta að heilsuhofið þeirra, verslunin Systrasamlagið á Seltjarnarnesi á stóran þátt í því hversu vinsælt flot (e. float) er orðið á Íslandi.

Skemmtileg viðbót við baðmenningu Íslendinga
Guðrún segir að flothettan hafi orðið til út frá hugleiðingum Unnar Valdísar um breyttar áherslu í heilsueflingu. „Stressaður tíðarandinn var farinn að kalla á fleiri valmöguleika sem miða að ró, slökun og jafnvel hugleiðslu því æ fleiri eru farnir að iðka hugleiðslu og geta sannarlega nýtt sér það fljótandi í vatni,“ segir Guðrún og bætir því við að flotið sé skemmtileg viðbót við baðmenningu þjóðarinnar.

„Um leið og við systur, sem þekkjum Unni mjög vel, sáum glitta í hugmynd hennar urðum við hugfangnar. Hvað gat verið annað þarna á ferð en alger klassík sem heimurinn myndi smám saman uppgötva? Þessi hönnun fæddist sígild. Það er okkar mat. Fljótlega fórum við að stunda tilraunaflot með Unni, fyrst í Sóley Natura Spa, en þegar ljóst varð að við systur myndum opna Systrasamlagið fyrir framan Sundlaug Seltjarnarness lá beinast við leyfa fleirum að fljóta með okkur undir berum himni,“ segir Guðrún.

Hún segir að það hafi ekki annað komið til greina en að Flothettan yrði hluti af hugmyndafræði Systrasamlagsins en það er yfirlýst stefna þeirra systra að ganga skrefinu lengra í heilsumálum og taka andann með í efnið.

„Nú er komið að því að færa enn út kvíarnar. Af því tilefni ætlum við að efna til fyrsta Sveita-Samflotsins í Gömlu lauginni á Flúðum, sem að öðrum laugum ólöstuðum, er besta flotlaug landsins,“ segir Guðrún en samflotið verður næsta laugardag, 27. júní, frá kl. 22 til miðnættis.

Fyrir alla sem vilja slaka á
„Flot er fyrir konur, börn og karla. Það hefur reynslan sýnt okkur,“ segir Guðrún, „en eins og oft þegar svona töfrar eiga í hlut þá eru konurnar leiðandi og þær taka með sér menn og börn. Umfram allt er flot fyrir þá sem vilja slaka á eða jafnvel ganga aðeins lengra og hugleiða. Það er fátt auðveldara en að leggjast öruggur út af og loka augunum eða horfa upp í himininn. Það er líka eitthvað heilandi við heitt vatnið sem fær fólk til að slaka betur á. Svo er hitt að það er staðreynd að streita er eitt helsta mein vestrænnar menningar og hefur því miður oft erfiðar afleiðingar.“

Flot og þeta heilabylgjurnar
Guðrún segir að fólk hafi margvíslegan ávinning af floti. „Það er eiginlega alveg ótrúlegt hvað það að leyfa sér að fljóta hefur marga kosti. Fólk getur náð mjög djúpri slökun á skömmum tíma. Vísindamenn hafa tengt jákvæðar niðurstöður af floti beint þeta (e. theta) heilabylgjunum en það er hið ómótstæðilega notalega ástand sem skapast rétt áður en við svífum inn í svefninn. Þegar alger ró færist yfir. Við getum líka þekkt þessa tilfinningu milli svefns og vöku á því að stundum kippist fólk við sem stafar að öllum líkindum af því að ákveðinn spennuþröskuldur rofnar,“ segir Guðrún en þess má geta að floti hefur verið líkt við djúpa Zen hugleiðslu.

„Þeta heilabylgjur merkja samkvæmt mælingum að lítil rafvirkni er í heilanum. Það sem er þó öllu forvitnilegra er að þeta heilabylgjur mælast gjarnan í vökuástandi munka sem eiga margra ára hugleiðsluþjálfun að baki. Í þeta ástandi er líkt og við öðlumst skýra mynd af öllu í kringum okkur og áreynslulaus skipulagsvinna getur átt sér stað,“ útskýrir Guðrún.

Guðrúnar segir að reglulegt flot þau áhrif að undirmeðvitundin fljóti upp á yfirborðið og nýtist okkur þannig í daglegu lífi. „Ein af stærstu gjöfum flotsins er þú getur náð stöðugu þeta ástandi á skömmum tíma. Það er því mjög líklegt að flot nýtist sérlega vel þeim sem eru í skapandi vinnu, t.d. eins og hönnuðum, rithöfundum, myndlistarmönnum, tónlistarmönnum, arkitektum og öðrum sem þurfa að tengja hugmyndir raunveruleikanum.“

Íslenskan Flothettan einstök
Þegar Guðrún er spurð um hvort það þurfi einhvern sérstakan útbúnað fyrir flot þá segir hún að það sé allur gangur á því. „Sumir eru búnir þeim kostum að geta flotið án aðstoðar. Það eru þó býsna fáir. Þess vegna hafa orðið til sérstakir flottankar og allskyns útbúnaður. En ekkert í líkingu við íslensku Flothettuna sem veitir fólki algert frelsi til að fljóta inni sem úti. Þessi áhugi fólks á floti hefur líka orðið til þess að margir hafa rannsakað kosti flotsins.“

Guðrún segir að ef vel tekst til verði Sveita-Samflotið örugglega endurtekið og ekki síður að vetralagi en sumarlagi.

Enn er hægt að skrá sig eða kaupa „aðgöngumiða“ í Sveita-Samflotið eða til föstudagsins 26. júní í síma 511 6367. Einnig má senda skilaboð á Facebook. Innifalið er aðgangur að laug, Flothetta og fótaflot, upphitun, næringarríkur matarbiti og samþætting vinstra og hægra heilahvels.

Fyrri greinNesjavallaleið lokuð á miðvikudag og fimmtudag
Næsta greinNý vinnsluhola boruð á Hellisheiði