Flóaskóli sigraði í Eftirréttakeppni grunnskólanna

Lið Flóaskóla með verðlaunin. Þórir Erlingsson, forseti klúbbs matreiðslumeistara afhenti sigurlaunin. Ljósmynd/Eydís Rós Eyglóardóttir

Lið Flóaskóla gerði sér lítið fyrir og sigraði Eftirréttakeppni grunnskólanna 2022, sem haldin var í samstarfi við Klúbb matreiðslumeistara og IÐUNA fræðslusetur í gær.

Liðið skipuðu þær Ásdís Eva Magnúsdóttir, Júlía Kolka Martinsdóttir, Svandís Aitken Sævarsdóttir og Þórunn Eva Ingvarsdóttir.

Stelpurnar sýndu mikinn metnað við undirbúning keppninnar og lá mikil vinna að baki hjá þeim, en stelpurnar eru búnar að æfa sig, þróa uppskriftirnar og framsetningu réttanna í margar vikur undir góðri leiðsögn Iðunnar Ýrar Ásgeirsdóttur, heimilisfræðikennara.

Þær báru fram skyrköku með kanilbotni og karamelluseruðum kókos, panna cotta með hvítu súkkulaði og kartöflukanilköku með rjómaostakremi, en kartöflurnar tóku þær með sér úr Flóanum. Lið vann glæsilegan sigur og fengu aukastig fyrir samvinnu og frumleika.

Átta skólar tóku þátt í keppninni, Flóaskóli og Víkurskóli ásamt sex skólum af höfuðborgarsvæðinu.

Myndirnar hér að neðan tók Eydís Rós Eyglóardóttir.

Fyrri greinNýr veitingastaður í mathöllina í stað Smiðjunnar
Næsta grein„Vissu ekki að fiskur gæti verið svona góður“