Flóalistinn býður fram í Flóahreppi

Árni Eiríksson á Skúfslæk 2 í Flóahreppi er í 1. sæti Flóalistans, sem er nýtt framboð í Flóahreppi fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í maí.

Áhugahópur um framboð til sveitastjórnar í Flóahreppi bauð til opins fundar í félagsheimilinu Þingborg fyrir skömmu og var tilefni fundarins málefni sveitarfélagsins og uppstilling framboðslista fyrir sveitastjórnarkosningar.

Á fundinum voru ýmis málefni rædd og í framhaldinu lýstu nokkrir aðilar yfir áhuga sínum á að sitja á listanum. Uppstillinganefnd kom með tillögu að lista og var hann samþykktur af öllum viðstöddum.

Flóalistinn mun hafa listabókstafinn F og kjörorð listans eru „samstaða, ráðdeild og framsýni“.

Listann skipa eftirfarandi:
1. Árni Eiríksson – Skúfslæk 2
2. Margrét Jónsdóttir – Syðra Velli
3. Sigurbára Rúnarsdóttir – Langstöðum
4. Stefán Geirsson – Gerðum 2
5. Helgi Sigurðsson – Súluholti 1
6. Ingunn Jónsdóttir – Hallanda
7. Heimir Rafn Bjarkason – Árprýði
8. Mareike Schacht – Fljótshólum
9. Davíð Ingi Baldursson – Litla Ármóti
10. Bjarni Stefánsson – Túni

Tveir listar voru í framboði við kosningarnar árið 2010 T-listinn og R-listinn og var Árni þá í 2. sæti R-listans sem fékk fjóra menn kjörna. Að sögn Árna verður ekki boðið fram undir merkjum R-listans í ár. Hluti þeirra sem standa að F-listanum komu að starfi R-listans á sínum tíma en á nýja listanum eru einnig margir einstaklingar sem eru að koma að sveitarstjórnarmálum í fyrsta skipti.