Flóahreppur kaupir land af Kirkjumálasjóði

Sveitarstjórn Flóahrepps hefur samþykkt að kaupa tvær lóðir, samtals 15,1 hektara úr landi Hraungerðis, af Kirkjumálasjóði. Kaupverðið er sjö milljónir króna.

Þetta eru spildur, sem sveitarfélagið hefur leigt af Biskupsstofu og eru m.a. undir húsnæði leikskólans Krakkaborgar, Þingborg og gömlu Þingborg.

Sveitarstjórn samþykkti í janúar að bjóða sex milljónir króna í lóðirnar. Á fundi sveitarstjórnar í síðustu viku var lagt fram gagntilboð frá Kirkjumálasjóði upp á sjö milljónir króna og var það samþykkt. Kaupin er gerð með fyrirvara um samþykki kirkjuráðs.

Á fundi sveitarstjórnar í síðustu viku var einnig lagt fram erindi þar sem spurst var fyrir um húsnæði gömlu Þingborgar og hvort að til greina komi að húsið verði selt. Sveitarstjórn samþykkti að skoða núverandi nýtingu húsnæðisins og framtíðarnýtingu þess.

Fyrri greinSunnlensku liðin náðu ekki 5. sætinu þrátt fyrir sigra
Næsta greinRósa og Gunnar taka við Árnesi