Á fundi sínum í gær var sveitarstjórn Flóahrepps einhuga um að hafna erindi Sveitarfélagsins Árborgar um færslu á sveitarfélagamörkum til austurs við Selfoss. Flóahreppur hyggst hins vegar kanna hug íbúa sinna til sameiningar sveitarfélaga næsta vor.
Í bókun sveitarstjórnar Flóahrepps er nágrönnunum í vestri þakkað fyrir erindið um leið og því er hafnað. Flóahreppur tekur hins vegar jákvætt í áframhaldandi uppbyggingu þéttbýlisins til austurs og lýsir yfir vilja til samstarfs og samninga sveitarfélaganna um skipulagsmál og þjónustu við svæðið.
„Sveitarstjórn hvetur landeiganda (Árborg) til þess að hefja vinnu við deiliskipulag þess hluta svæðisins sem liggur við nýjan hringveg um Ölfusá, sem í aðalskipulagi Flóahrepps er skilgreint sem verslunar og þjónustusvæði,“ segir í bókuninni en heildarendurskoðun á aðalskipulagi Flóahrepps stendur nú yfir og mun skipulag á sveitarfélagamörkum falla undir þá vinnu. Flóahreppur mun óska eftir sameiginlegum fundi með Árborg til að ræða málið.
Sameining leiðir til margfaldrar skuldaaukningar á hvern íbúa Flóahrepps
„Með þessari ákvörðun telur sveitarstjórn að verið sé að gæta hagsmuna íbúa Flóahrepps. Ljóst er að veruleg verðmæti felast í landinu, einkum með tilliti til tekjuöflunar í formi fasteignagjalda af skilgreindu verslunar og þjónustusvæði,“ segir í bókun sveitarstjórnar, sem bætir við að almennir hagsmunir íbúa Flóahrepps séu ekki betur tryggðir með sameiningu sveitarfélaganna að óbreyttu.
„Samanburður á rekstri sveitarfélaganna 2024 sýnir að skuldahlutfall og skuldir á hvern íbúa eru umtalsvert hagstæðari í Flóahreppi en í Árborg. Sameining myndi því leiða til margfaldrar skuldaaukningar á hvern íbúa Flóahrepps,“ segir í bókun sveitarstjórnar Flóahrepps.
Skoða mismunandi sameiningarkosti
Sveitarstjórn Flóahrepps hyggst skoða þann möguleika að leggja fyrir íbúakönnun samhliða
sveitarstjórnarkosningum vorið 2026 þar sem könnuð verður afstaða íbúa til sameiningar og mismunandi sameiningarkosta. Ekki verði um bindandi íbúakosningu að ræða heldur könnun á meðal kosningabærra íbúa sveitarfélagsins. Sú vinna myndi nýtast til frekari greininga að loknum kosningum 2026.
Samkvæmt sveitarstjórnarlögum ber sveitarfélögum undir 1.000 íbúum, innan árs frá sveitarstjórnarkosningum, að hefja annaðhvort formlegar sameiningarviðræður eða vinna álit um stöðu sveitarfélagsins, getu þess til að sinna lögbundnum verkefnum og þau tækifæri sem felast í hugsanlegri sameiningu. Um síðustu áramót voru íbúar Flóahrepps 726 talsins.

