Flóahreppur fundar með ráðuneyti

Umhverfisráðuneytið og stjórnendur Flóahrepps ætla að hittast í vikunni og ræða um dóm Hæstaréttar sem ógilti ákvörðun umhverfisráðherra að hafna aðalskipulagi Flóahrepps.

Umhverfisráðherra er ekki enn búin að staðfesta aðalskipulagið.

Samkvæmt upplýsingum frá umhverfisráðuneytinu vill umhverfisráðherra m.a. vita hvort Flóahreppur óskar eftir að það aðalskipulagið sem ráðherra hafnaði verði staðfest eða það skipulag sem farið var af stað með eftir að ákvörðun ráðherra lá fyrir.

Efir að Svandís Svavarsdóttir hafnaði aðalskipulaginu fór Flóahreppur af stað með nýja skipulagsvinnu, en jafnframt ákvað hreppurinn að kæra ákvörðun hennar til dómstóla. Vinnu við þetta nýja skipulag er á lokastigi. Bæði þessi skipulög gera ráð fyrir virkjun í neðrihluta Þjórsá.

Skeiða- og Gnúpverjahreppur gerir einnig kröfu til Svandísar um að hún staðfesti breytingu á aðalskipulagi hreppsins. Þær upplýsingar fengust hjá ráðuneytinu að það mál sé í vinnslu.

mbl.is greindi frá þessu.