Flóðahætta ógnar íbúum

Mikil hætta steðjar að íbúum á Bakkabæjum og í Landeyjum í Rangárþingi vegna flóðahættu í Þverá ef kæmi til Kötlugoss. Málið hefur verið rætt á fundi sveitarstjórnar Rangárþings ytra.

„Þetta er afar brýnt mál,“ segir Gunnsteinn R. Ómarsson, sveitarstjóri en honum hefur verið falið að fá fund með þingmönnum Suðurlands og forsvarsmönnum Vegagerðarinnar.

„Bæði vegna öryggis íbúa og sem samgöngubót fyrir þá. Þessi hluti þessa sveitarfélags er einangraður frá þjónustu sveitarfélagsins hérna en alvarlegra er ógnin vegna flóðahættunnar. Það er til lausn á þessu vandamáli en spurningin er peningar,“ segir Gunnsteinn.

Vill sveitarstjórn fá vegtengingu yfir Þverá, styrkja Djúpósstíflu sem og byggja upp og bæta Sandhólaferjuveg.

Fyrri greinGrunaður um á þriðja tug brota
Næsta grein„Bókarí” í Hveragerði